01

Ávarp formanns

Kjarasamningarnir sem gerðir voru við Starfsgreinasambandið, VR og iðnaðarmannafélögin í byrjun desember renna sitt skeið í upphafi næsta árs. Þeir tóku gildi í beinu framhaldi af Lífskjarasamningnum 2019. Samningarnir hafa verið fyrirmynd annarra samninga sem gerðir hafa verið í framhaldinu.

Í samningunum er að finna ákvæði um að aðilar hans munu á tímabilinu ræða um mikilvæg atriði sem tengjast réttindum og skyldum á vinnumarkaði og stefnt er að því að nýir samningar til langs tíma geti tekið gildi snemma á næsta ári. Þar eru til umfjöllunar einfaldari og skýrari samningar, meðal annars um vinnutíma, lífeyrismál, menntun og skilyrði í ferðaþjónustu og á veitingahúsum

Algert skilyrði er að ríki og sveitarfélög fylgi þeirri línu sem lögð hefur verið um launaþróun ársins þannig að ekki komi til höfrungahlaups á vinnumarkaðnum.

Verðbólga og vextir

Spár gera ráð fyrir því að verðbólga fari minnkandi á næstu mánuðum og misserum. Verðbólgan hefur reynst þrálátari en búist var við og það sama á við um verðbólgu í mörgum nálægum ríkjum. Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti jafnt og þétt sem er í takt við aðgerðir seðlabanka í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Búast má við að þetta dragi úr fjárfestingu fyrirtækja og að neysla minnki. Mjög hefur hægt á markaði með fasteignir, kaupsamningum fækkað auk þess sem merki eru um að fasteignaverð sé nokkuð stöðugt.

Þrátt fyrir þetta er fyrirsjáanleg mikil þörf á nýju húsnæði næstu árin til að mæta íbúafjölgun sem bæði er náttúruleg og vegna fjölda aðflutts fólks. Þess vegna verða sveitarfélögin að búa sig undir að mæta þessari þörf með vinnu við aðalskipulag og deiliskipulag þannig að þegar aðstæður batna standi þessir þættir ekki í vegi fyrir framkvæmdum. Eins skiptir miklu að liðka fyrir í regluverkinu þannig að ekki skapist óþarfa hindranir sem lengja framkvæmdatíma og auka kostnað.

Fjármál ríkis og sveitarfélaga

Útgjöld hins opinbera jukust mjög meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir 2020 til 2022. Skuldir hafa aukist og vaxtagreiðslur hækkað. Nú er nauðsynlegt að bregðast við, gæta aðhalds og sjá til þess að hvorki ríki né sveitarfélög kyndi undir þenslu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður að draga úr óhóflegum vexti útgjalda og á sama tíma er heldur ekki unnt að auka álögur á íbúa landsins sem þurfa að glíma við hátt vaxtastig og meiri verðbólgu en um langa hríð.

Orku- og loftslagsmál

Það hefur verið ljóst um töluverðan tíma að verulega þurfi að auka orkuframleiðslu í landinu til að ná fram markmiðum um orkuskipti og í loftslagsmálum. Jafnframt verður að efla flutningskerfi orkunnar til að bæta orkuöryggi. Þannig má tryggja að unnt verði að skipta sem mest út innfluttri orku úr jarðefnaeldsneyti fyrir sjálfbæra og græna íslenska orku.

Ekki er síður mikilvægt að auka framboð orku til að tryggja góð og betri lífskjör fyrir núverandi íbúa landsins og þá sem hingað koma á næstu árum og áratugum. Það er sama hvort er ferðaþjónusta, fiskeldi, ný iðnfyrirtæki eða verslun og þjónusta. Allir þurfa orku. Bæði rafmagn og heitt vatn.

Á síðustu áratugum hefur tekið gildi ný löggjöf sem gerir miklu flóknara en áður að ráðast í nýframkvæmdir á þessu sviði. Allt of fá verkefni eru nú komin á það stig að unnt sé að sjá fram á hvenær þau verði að veruleika. Það er verðugt verkefni ríkisstjórnarinnar að greiða úr flækjum og ýta undir ný verkefni. Það er ekki góð tilhugsun að ekki sé unnt að ráðast í vænleg og ábatasöm verkefni í atvinnulífinu vegna þess að ekki sé unnt að fá rafmagn eða heitt vatn. Þetta er sagt með fullri virðingu fyrir umhverfi og náttúru landsins sem alltaf þarf að gæta að svo Íslendingar geti áfram notið þeirrar stórkostlegu upplifunar sem náttúra landsins býður upp á.

Stöðnun á þessu sviði hefur áhrif á alla og mun verða til þess að lífskjör hér munu ekki batna í takt við það sem annars staðar gerist. Og markmið um kolefnishlutleysi og mikinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verður trauðla náð ef virkjanaframkvæmdir sitja á hakanum.

Fyrirtækin í landinu hafa lagt mikið fram til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við starfsemi sína og jafna hana með framlögum til skógræktar, landgræðslu og endurheimt votlendis. Þau leitast við að endurnýja búnað sinn og innleiða nýjungar á öllum sviðum og tryggja með því stöðugar framfarir í umhverfismálum.

Rekstrarskilyrðin

Samkeppnishæfni skiptir öllu máli fyrir fyrirtækin og möguleika þeirra til að standa undir hækkandi launum, sköttum og skyldum. Stjórnvöldum ber að tryggja að efnahagsumhverfið og regluverk sé svipað og jafnvel hagstæðara en í samkeppnislöndunum. Útflutnings- og samkeppnisgreinarnar skipta öllu við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og ráða miklu um hvernig tekst að búa almenningi góð og sífellt betri lífsskilyrði.

Að lokum  

Allt er breytingum háð. Við horfum nú á bak góðum og traustum vini og leiðtoga til annarra starfa. Það verður mikil eftirsjá af Halldóri Benjamín, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins undanfarin sjö ár. Samstarfið hefur verið farsælt og hefur hann leitt samtökin styrkum höndum í gegnum mikla umrótatíma á íslenskum vinnumarkaði.

Ég þakka öllum fyrirtækjum í Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum þeirra fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á starfsárinu. Einstök var samstaðan sem myndaðist í atvinnulífinu á örlagastundu þegar óvíst var hvort verkfallsátök myndu lama samfélagið um hríð. Fyrir það er ég þakklátur.  

En verkefnið er viðvarandi og því lýkur aldrei. Samstaða okkar er mikilvægari en nokkru sinni.  

Eyjólfur Árni Rafnsson

formaður Samtaka atvinnulífsins