05

Samskipti og miðlun

Samskipti og miðlun starfsársins einkenndust af kjaraviðræðum og sögulegri kjaradeilu við Eflingu. Mánudagsmolar voru kynntir til leiks í aðdraganda kjaraviðræðna í ágústmánuði 2022 þar sem félagsmenn, fjölmiðlar og aðrir fylgjendur fengu greiningar, forsendur og framvindu beint í æð í fréttapóstum. Upplýsingafundir um kjaraviðræður fyrir félagsmenn voru tíðir, stundum vikulega, eða um tólf streymisfundir á tímabilinu. Þar fylgdust hátt í 900 félagsmenn grannt með stöðu mála hverju sinni og sérfræðingar Samtaka atvinnulífsins sátu fyrir svörum. Alls var vísað 2253 sinnum til Samtaka atvinnulífsins á starfsárinu í hefðbundnum fjölmiðlum sem er um 50% aukning milli ára. 55 greinar voru skrifaðar um ólík málefni og birtust í fjölmiðlum á starfsárinu. Þrátt fyrir eril í kjarasamningum var gróska í málefnastarfi samtakanna með greiningum, umsögnum og viðburðum. Þá gekk þjónusta við félagsmenn sinn vanagang.

Kjaraviðræður

Fyrirtækin okkar í aðdraganda kjaraviðræðna

Samtök atvinnulífsins (SA) héldu áfram með verkefnið Fyrirtækin okkar sem ætlað er að minna á fjölbreytni íslensks atvinnulífs, sýna hin ólíku viðfangsefni sem fólk í rekstri fæst við og segja sögur af öflugu fólki í samfélaginu.

Raunveruleikinn er sá að fyrirtæki á Íslandi skipta þúsundum og fjölbreytni í starfsemi og stærð er gríðarleg. Árið 2020 starfaði um helmingur launþega í atvinnulífinu hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn og rúm 70% launþega starfaði hjá fyrirtækjum með færri en 250 starfsmenn. Flest störfum við á minni vinnustöðum þar sem öll þekkja hvert annað og eigendur og stjórnendur fyrirtækisins eru oftast í kallfæri.

Með góðri blöndu stórra og minni fyrirtækja, sérhæfingar, nýsköpunar og hugvits skapast endalaus tækifæri fyrir fólk til að nýta menntun sína og þekkingu í verki, finna sköpunarkrafti útrás og viðhalda gömlum hefðum og þekkingu.  

Á www.fyrirtaekinokkar.is má finna allar sögur fyrirtækjanna okkar þar sem nýjar sögur bætast reglulega við.

Hringferð 2022

Ár hvert leggja SA land undir fót í svokallaðri hringferð. Í maí 2022 var langferðabíllinn ræstur út og fundað með félagsfólki SA um allt land. Rætt var um efnahagsmálin, komandi kjaraviðræður og það sem aðildarfyrirtækjum okkar fannst skipta máli.

Aðsókn á fundina var vonum framar og var það mál manna að ómetanlegt væri að þétta raðirnar og styrkja áfram tengslin við landsbyggðina.

Dagskrá funda:
Sérfræðingar SA kynntu stöðu efnahagsmála og áttu vinnufund með fundargestum til að fá þeirra innlegg í komandi kjaraviðræður. Loks fóru sérfræðingar vinnumarkaðssviðs SA yfir starfsmanna- og kjaramál sem félagsmenn óskuðu eftir að tekin yrðu fyrir.

Staðsetningar funda:

Ársfundur atvinnulífsins 2023

Botninn var sleginn í hringferðina með ársfundi atvinnulífsins sem jafnframt var upptaktur að kjaraviðræðum. Á síðustu metrum Lífskjarasamningsins beindum við sjónum okkar að kjarasamningum og því samhengi sem ríkir á milli reksturs fyrirtækja og svigrúms til launahækkana. Rúmlega 450 manns sátu fundinn í stóra sal Borgarleikhússins og tæplega 2000 manns horfðu á streymið innan- og utanlands.

Mynd frá ársfundi atvinnulífsins. //BIG
Alltof margir trúa því að hagnaður eins sé tap annars. Þeir átta sig ekki á því sem augljóst þótti við upphaf iðnbyltingar að verkaskipting og samvinna myndu færa öllum betri hag – að aukin viðskipti væru allra ávinningur.

Ársfundur atvinnulífsins hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur atvinnulífs og stjórnmála til að ræða brýn málefni samfélagsins og leiðir til að bæta lífskjör landsmanna.  

> Horfa á fundinn eftir dagskrárliðum

Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri og eigandi Jómfrúarinnar, flutti erindi á ársfundi atvinnulífsins. //BIG
Við sem rekum fyrirtæki eins og mitt notum ekki kjarasamningalingó dags daglega. Við erum ekki gagnaðilar eða mótherjar okkar starfsfólks, við erum bandamenn þess og vinir. Við vinnum við hlið þeirra, með þeim og oftar en ekki fyrir þau. Þetta er því brothætt staða. Ég tel mig mæla fyrir munn margra þegar ég segist finna til ábyrgðar. Ábyrgðar á því að viðhalda því sem áunnist hefur -  en glopra því ekki niður.

> Horfa á erindi Jakobs Einars

Guðrún: Stytta vinnutíma og hækka laun en enginn vill skerta þjónustu

Guðrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Kokku, flutti erindi um styttingu vinnutíma og hækkun launa.
Á sama tíma og seðlabankinn hækkar stýrivexti, er okkur sagt að ekki megi hækka vöruverð. Það þýðir að álagningin lækkar óhjákvæmilega. Svo er húsaleigan vísitölutengd, sem aftur á móti hækkar kostnað. Svo er verið að fara fram á umtalsverðar kauphækkanir og enn frekari styttingu vinnuvikunnar. 4 daga vinnuvika þó ekki vilji neinn fá skerta þjónustu. Það á helst að vera opið allan sólarhringinn 7 daga í viku.

> Horfa á erindi Guðrúnar

Eyjólfur Árni: Lífskjör fólks haldi áfram að batna 

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA. //BIG
 Á þessum bæjum voru Morgunblaðið og Tíminn keypt og voru bæði blöðin lesin upp til agna. Af lestrinum lærði maður að helsta leiðin til að rétta af efnahag landsins væri gengisfellingar. Af samtali þeirra fullorðnu skildi maður að þetta væri líklega illskásta lausnin í stöðunni en að á henni græddi samt enginn. 

> Ávarp formanns SA í rituðu máli

> Horfa á ávarp formanns SA

Halldór Benjamín: Verðmætin verða til í atvinnulífinu

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. //BIG

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA fjallaði m.a. um íslensk fyrirtæki og samfélag í aðdraganda kjaraviðræðna og að mikilvægt væri að endurtaka ekki fyrri mistök og að tryggja að réttir hlutar hagsögunnar endurtaki sig:

Þegar vel gengur leita of margir í úreltar hugmyndir úr hagsögunni. Það er eðlilegt að fólk deili um skiptingu stækkandi þjóðarköku – en við megum aldrei falla í þá freistni að halda að framfarir verði af sjálfu sér. Velferð þjóða á sér ástæður og frumskylda okkar er að standa vörð um skipulagið sem bætir hag allra; markaðshagkerfið.

Verðmæti verða ekki til í starfshópum, nefndum og vinnuhópum. Þau verða til í atvinnulífinu þegar atorkusamt fólk leggur tíma sinn, hugvit og fjármuni í að byggja upp eitthvað nýtt. Þegar fólk í viðskiptum tekur áhættu.

> Horfa á erindi Halldórs Benjamíns

Katrín: Stöndum saman líka þegar gefur á bátinn

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands. //BIG
Það sem við getum lært af heimsfaraldri er hvað það skiptir máli að standa saman þegar gefur á bátinn – að gera ekki bara kröfu um samstöðu þegar á brattann sækir, heldur líka þegar gengur vel. Lífskjarasamningarnir voru heilladrjúgir fyrir samfélagið allt og náðust þrátt fyrir ýmsar hrakspár. Ég trúi því að þrátt fyrir hrakspár núna þá sé það fólk sem situr við samningaborðið þeirrar gerðar að það muni ná farsælum samningum fyrir samfélagið allt.

> Horfa á ávarp forsætisráðherra

Ole Erik: Semjum fyrst í geirum sem kljást við erlenda samkeppni

Ole Erik Almlid, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Noregi (NHO)
Lykilatriði í verkferlum okkar er að samið sé fyrst í þeim geirum sem þurfa að kljást við erlenda samkeppni. Þar má nefna framleiðslu, iðnað tengdan náttúruauðlindum og olíugeirann. Niðurstöður þeirra viðræðna skapa viðmið sem notuð eru í viðræðum á öðrum sviðum einka- og opinbera geirans sem eru utan okkar umsjár.

> Horfa á ávarp Ole Erik Almlid

Hannes G. Sigurðsson lauk störfum með óvæntri viðhöfn

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, og starfsfólk SA kom Hannesi G. Sigurðssyni á óvart með stuttu myndbroti um feril hans. //BIG

Einn dagskrárliða Ársfundar atvinnulífsins 2022 markaði tímamót, er Hannes G. Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar SA, var kvaddur með virktum vegna starfsloka. Hannes var lengst af aðstoðarframkvæmdastjóri og hefur verið lykilmaður í vinnumarkaðsmálum og kjarasamningagerð síðustu áratuga. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í ræðu sinni á fundinum að hún vissi ekki hver ætti nú að endurskoða lífeyriskerfið og bætti við í léttum tón að kjaratölfræðinefnd hefði boðað til krísufundar. 

Störfum Hannesar fyrir íslenskt atvinnulíf voru gerð góð skil í stuttumyndbroti sem sýnt var á fundinum:

Lífskjarasátt?
Heimildarmynd um Þjóðarsátt og Lífskjarasamninga

Hratt fennir yfir nýliðna atburði en sjón er sögu ríkari. Í tilefni ársfundar rifjuðum við upp Lífskjarasamningana 2019 með hliðsjón af Þjóðarsáttinni 1990 í kvikuðu efni:

Sérblað

Sérblað um Ársfund atvinnulífsins og áherslur SA var borið út í tilefni af ársfundi:

> Sérblað með Fréttablaðinu

Skopteikningar Halldórs Baldurssonar

Á fundinum mátti einnig sjá skopteikningar Halldórs Baldurssonar um kjarasamningsviðræður lifna við á víð og dreif um Borgarleikhúsið. Eins birtust þær á biðskjá í streymi af fundinum:

> Teikningar Halldórs Baldurssonar lifna við

Víxlverkun launa og verðlags

Í kringum Ársfundinn og í aðdraganda kjaraviðræðna var ýmiss konar margmiðlunarefni keyrt á samfélagsmiðlum. Þar tróndi efst fræðsluefni um víxlverkun launa og verðlags er náði metáhorfi í bókum SA eða um 80% áhorfi frá upphafi til enda hjá þeim tíu þúsundum sem byrjuðu að horfa:

Myndasafn

Birgir Ísleifur (BIG) myndaði mannskapinn á Ársfundi atvinnulífsins:

> Ljósmyndir af fundinum

Mánudagsmolar og upplýsingafundir

Samtök atvinnulífsins sendu út vikulegt fréttabréf til félagsmanna undir nafninu Mánudagsmolar. Tilgangurinn var að upplýsa félagsmenn um málefni líðandi viku og fræða um greiningar SA á stöðu kjaraviðræðna hverju sinni. Mánudagsmolar eru hvergi nærri hættir og halda félagsmönnum áfram upplýstum um gangverk atvinnulífsins.

Upplýsingafundir um kjaraviðræður fyrir félagsmenn voru tíðir, stundum vikulega, eða um 12 streymisfundir á tímabilinu. Þar fylgdust hátt í 900 félagsmenn grannt með stöðu mála hverju sinni og sérfræðingar SA sátu fyrir svörum.

Kjaradeila SA og Eflingar kallaði á enn sterkari upplýsingagjöf

Skammtímasamningar náðust á almennum vinnumarkaði í desember. Samningarnir kölluðust Brú að bættum lífskjörum og náðu til 80 þúsund einstaklinga. Efling stóð þó enn utan sáttar, en kjaraviðræður SA við félagið tóku skjótan endi eftir einungis fimm daga viðræður. Eftir mikinn handagang í öskjunni og orðaskak í fjölmiðlum hófust verkföll Eflingar þann 7. febrúar á sex hótelum Íslandshótela og Fosshóteli í Reykjavík. Í kjölfar hundsaðrar miðlunartillögu, aðfararbeiðni, óeirða og fleiri yfirvofandi verkfalla, var aðeins eitt í stöðunni; verkbann af hálfu SA, sem samþykkt var með 94,73% atkvæða. Þessi sögulega kjaradeilda SA og Eflingar reyndi mikið á upplýsingaflæði úr Húsi atvinnulífsins, en framvinda deilunnar var hröð og breyttist ört.

Hvað þýðir verkbann?

Vefur SA og vinnumarkaðsvefur SA gegndu sem fyrr veigamiklu hlutverki í upplýsingagjöf til félagsmanna í kjaradeilunni við Eflingu og var sérstaklega hugað að því að þýða efnið yfir á ólík tungumál með hraði þótt upplýsingar breyttust mínútu frá mínútu. Læstir hlutar vinnumarkaðsvefsins voru einnig opnaðir alveg fyrir almenning í upplýsingaskyni.

Leitarvélabestun og samfélagsmiðlar

Þá skipti höfuðmáli að vera efst í leit á Google með leitarvélabestun og kostun. Neyðarúrræði eins og verkbann þurfti að vera vel útskýrt enda á allra vörum og vitorði um tíma. Kostun við auglýsingar á ólíkum tungumálum var keyrð á samfélagsmiðlum og einblínt á viðeigandi markhópa til þess að stemma stigu við upplýsingaóreiðu og rangfærslum mótaðila í kjaradeilunni. Þá voru upplýsingapakkar og reiknivélar reglulega sendar til forsvarfsfólks aðildarfyrirtækja svo það gæti átt upplýst samtal við starfsfólk sitt. Skilaboðin voru að við þyrftum saman að róa að stöðugleika, aðilar vinnumarkaðar, hið opinbera og Seðlabanki Íslands.

Reiknivél – Hverju tapa ég á verkfalli?

SA lögðu fram einfalda reiknivél handa félagsmönnum Eflingar þar sem heildarlaun á mánuði voru slegin inn, miðað við fullt starf með vaktaálagi, yfirvinnu og viðbótargreiðslum -og forsendur um lengd verkfallsins. Þannig gat það kynnt sér raunveruleg fjárhagsleg áhrif verkfallsins. Þá bættist við reiknivél þar sem félagsmenn Eflingar gátu reiknað tapaða afturvirkni kjarasamninga ef til verkfallsaðgerða kæmi. Þar mátti setja inn forsendur um heildarlaun á mánuði og mögulegar launahækkanir í nýjum kjarasamningi. Afturvirkniklukkan náði yfir 35.000 innkomur á skömmum tíma.

> Hverju tapa ég á verkfalli?

> Afturvirkniklukkan

Sögulegri kjaradeilu lauk loks 8. mars 2023 er aðildarfyrirtæki SA og félagsmenn Eflingar samþykktu miðlunartillögu starfandi ríkissáttasemjara með afgerandi meirihluta.98,5 prósent aðildarfélaga SA og 85 prósent félagsmanna Eflingar greiddu atkvæði með tillögunni.

Reglubundnar kannanir: Púlsinn tekinn á aðildarfyrirtækjum

SA heldur úti reglubundnum könnunumí samstarfi við Maskínu, Gallup og Seðlabanka Íslands. SA púlsinn var einnig tekinn reglulega áfélagsmönnum um stöðu atvinnulífsins í gegnum félagsmenn SA. 

> 400 stærstu haust 2022 – Dregur úr þrýstingi á vinnumarkaði

> 400 stærstu vor 2023 – Brúnir þyngjast

Samtöl atvinnulífsins

Samtöl atvinnulífsins fara vítt og breitt um ólíka kima atvinnureksturs á Íslandi í hlaðvarpsþáttum. Fyrstu hlaðvarpsþættirnir hafa snúist um umhverfismál og haustið 2022 voru orkuskipti tekin fyrir í tilefni af Umhverfismánuði atvinnulífsins í október.

Augnablik

Augnablik eru örmyndbönd sem orðin eru fastur liður í málefnastarfi Samtaka atvinnulífsins og eru sérstaklega hugsuð og hönnuð til deilingar á samfélagsmiðlum. Þar eru stærstu málefnin sem SA vinnur að soðin niður í stutt skýringarmyndband upp úr greinaskrifum og annarri umfjöllun í fjölmiðlum.

Umhverfismánuður atvinnulífsins 

Í tengslum við hinn árvissa Umhverfisdag atvinnulífsins var allur októbermánuður2022 eyrnamerktur umhverfismálum og hringrásarhagkerfinu í 20 mínútna umræðuþáttum þvert á atvinnugreinar. Hringrásarhagkerfið snýst um hvernig nýta má hráefni á sem skilvirkastan hátt og fyrirbyggja t.a.m. sóun og losun gróðurhúsalofttegunda með breyttum áherslum í vöru- og þjónustuhönnun. Rannsóknir sýna að búast megi við að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og landsframleiðslu. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins.

Umræðuþættir og hlaðvarp

Þættirnir voru sýndir alla þriðjudaga og fimmtudaga í október frá 10:00 - 10:30 í Sjónvarpi atvinnulífsins á netinu, Facebook live og Samtölum atvinnulífsins á helstu hlaðvarpsveitum. Hér má sjá einn af umræðuþáttunum þar sem Benedikt Sigurðsson, upplýsingafulltrúi SFS ræðir við Gunnþór Ingvason, forstjóra Síldarvinnslunnar um hringrásarhagkerfið.

> Horfa/hlusta á þátt

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn í sjöunda sinn en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Dagskráin fór fram í raunheimum auk streymis í opinni dagskrá á vef SA, samfélagsmiðlum og fjölmiðlum þar sem áhorf mældist yfir 7000. Hér má horfa á Umhverfisdag atvinnulífsins í heild sinni:

Norðurál og Sjóvá hlutu umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt í tveimur flokkum, annars vegar fyrir framtak ársins og hins vegar var umhverfisfyrirtæki ársins valið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson,afhenti verðlaunin. 

Norðurál er umhverfisfyrirtæki ársins 2022

> Lesa frétt

Sjóvá eiga umhverfisframtak ársins 2022

> Lesa frétt

Krónan og Rio Tinto hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru afhent á morgunfundi um jafnréttismál í Hátíðasal Háskóla Íslands. Að verðlaununum standa Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA .

Krónan og Rio Tinto hlutu Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2022 við hátíðlega athöfn. Líkt og undanfarin ár veittu Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands verðlaun á sviði kynjajafnréttis, en í ár var einnig sérstakur Jafnréttissproti veittur vegna framtaks m.t.t. til fjölmenningar, fötlunar og annarra brýnna viðfangsefna jafnréttismála.

Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum, sem sett hafa jafnrétti á oddinn, og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama. Stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja, sem skapað hafa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggur til grundvallar, voru hvött til að senda inn tilnefningu í umsóknarferlinu.

> Sjá nánari umfjöllun um verðlaunahafa

Sjálfbærnidagur EY og SA

Samtök atvinnulífsins og EY á Íslandi héldu árlegan Sjálfbærnidag atvinnulífsins þar sem fyrirtæki á Íslandi geta sótt sér nýjustu þekkingu sem nýtist þeim í rekstri út frá sjálfbærni og þremur stoðum hennar; vernd umhverfisins, félagslegri velferð og efnahagsvexti. Dagurinn var nú haldinn í annað sinn undir yfirskriftinni Verðmæti í virðiskeðjunni.

Cecilie Kjeldsberg, sérfræðingur í mannréttindum innan sálfbærnisviðs EY á Norðurlöndum var með aðalerindi dagsins undir yfirskriftinni New regulations to uphold human rights in global supply chains are coming: what does it mean to your business?

Að loknum fróðlegum erindum héldu gestir til vinnustofu sem Cecilie Kjeldsberg og Dr. Snjólaug Ólafsdóttir leiddu.

> Horfa á fundinn

> Myndasafn

Skattadagurinn 2023

Hinn árlegi Skattadagur Deloitte, Samtaka atvinnulífsins ogViðskiptaráðs Íslands fór fram í janúar 2023 með viðhöfn þar sem þetta var í 20. sinn sem Skattadagurinn var haldinn. Opnunarávarpið hélt Guðmund­ur Árna­son, ráðuneyt­is­stjóri fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins, og fundarstjóri var Agla Eir Vilhjálmsdóttir. Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, fjallaði um fjármögnun vegakerfisins. Har­ald­ur Ingi Birg­is­son, lögmaður og meðeig­andi Deloitte legal, hélt er­indi um helstu skatta­laga­breyt­ing­ar og fór meðal ann­ars yfir þær breyting­ar sem hafa verið gerðar á íviln­un­um vegna raf­magns- og ten­gilt­vinn­bif­reiða. Þá birtust örinnslög með sjö fyrrum fjármálaráðherrum sem fóru yfir skattbreytingar síns tíma í embætti.  

Hvað voru þau að pæla?

Í tilefni af stórafmæli Skattadagsins fengum við sjö fyrrum fjármálaráðherra síðustu 20 ára til að þræða helstu skattbreytingar síns tíma í embætti ásamt landslagi í pólitík og ytra umhverfi. Hér má horfa á innslögin í heild sinni (20 mínútur):

Stoppað í götin

Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, fjallaði um fjármögnun vegakerfisins á Skattadeginum og þar kom fram að meira fjármagni er árlega varið til vegamála en nemur tekjum af umferð. Hafa útgjöldin farið vaxandi síðustu 11 árin, frá 2011 til 2021, frá 30 milljörðum króna upp í 52 milljarða króna. Tekjurnar hafa hins vegar ekki þróast á sama veg. Árið 2011 voru tekjurnar 40 milljarðar króna og uxu upp i 53 milljarða árið 2018. Frá þeim tíma hafa tekjurnar minnkað og voru aðeins 39 milljarðar króna árið 2021.

> Hér má nálgast kynninguna

> Horfa á fundinn í heild sinni