04

Samkeppnishæfni

Efnahags- og samkeppnishæfnisvið vinnur markvisst að hagsmunagæslu í þágu aðildarfyrirtækja þannig að framleiðni og verðmætasköpun þeirra geti aukist. Á hverju ári berast Samtökum atvinnulífsins fjöldi mála til umsagnar. Mál berast frá Alþingi, ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum. Þegar nýjar reglur eru settar er varða rekstrarskilyrði fyrirtækja og atvinnulífið í heild stendur efnahags- og samkeppnishæfnisvið vaktina og gætir að hagsmunum fyrirtækja. Auk þess taka Samtök atvinnulífsins oft upp mál að eigin frumkvæði og vekja athygli stjórnvalda eða almennings á þeim.

Samráðsgátt stjórnvalda auðveldar hagsmunaaðilum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fyrri stigum máls. Gáttin eykur gagnsæi og möguleika Samtaka atvinnulífsins (SA) á að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku opinberra aðila. SA skoða öll mál sem koma í gáttina og meta hvort þau hafi áhrif á atvinnulífið og skrifa þá eftir atvikum umsögn.

Einföldun regluverks

Á efnahags- og samkeppnishæfnisviði er lögð sérstök áhersla á einföldun regluverks sem gildir um atvinnulífið en SA styðja við mál sem hafa það að markmiði að einfalda reglubyrði. Íslenskt atvinnulíf býr við eina þyngstu reglubyrði sem þekkist meðal aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Mikilvægt er að atvinnulífið búi við skýrar og góðar leikreglur og að almenningur, hið opinbera og fyrirtækin séu vel varin gagnvart ólögmætri háttsemi í atvinnurekstri.

Öflugt eftirlit með atvinnustarfsemi er einnig mikilvægt til að auka traust til atvinnulífsins. Lagaumhverfi og eftirlit mega hins vegar ekki vera of íþyngjandi. Það eykur kostnað fyrirtækja sem minnkar þannig svigrúm til launahækkana og veikir samkeppnishæfni þeirra gagnvart fyrirtækjum í öðrum löndum. Veikari samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs leiðir til þess að störf verða færri en ella og starfsöryggi minna. Fyrirtæki skila þannig minni skatttekjum sem gerir það að verkum að hið opinbera verður verr í stakk búið til að standa undir grunnþjónustu sinni við almenning. Einföldun laga- og eftirlitsumhverfis atvinnulífsins er því hagsmunamál allra landsmanna og nauðsynlegur þáttur til að bæta kjör og tryggja næga atvinnu.

Opinbert eftirlit

Á Íslandi er aragrúi stofnana sem annast opinbert eftirlit með fólki og fyrirtækjum. Eftirlitsmenningin hefur litast af tortryggni en ætti miklu frekar að einkennast af trausti og gagnkvæmri virðingu fyrirtækja og stofnana. Eftirlitsstofnanir mega ekki ganga út frá því að lögbrot séu eðlilegur þáttur í starfi vinnandi fólks og rekstri fyrirtækja. Vandamálin eru margvísleg en stöðlun á framkvæmd eftirlits gæti verið ein lausnin. Draga þarf úr matskenndum þáttum og gæta þess að niðurstöður eftirlits séu ekki litaðar af geðþóttaákvörðunum heldur fyrirfram skilgreindum matsþáttum.

Opinbert eftirlit ætti að taka breytingum eins og annað samhliða framþróun á ýmsum sviðum og breyttum viðhorfum. Í því samhengi væri skynsamlegt að greina og ná utan um umfang opinbers eftirlits með kerfisbundnum hætti og endurmeta reglur sem í gildi eru. Meta þarf hvort tilteknar reglur eigi enn við og bæði þjóni og nái eðlilegum markmiðum. Að auki þarf að vera á varðbergi við innleiðingu nýrra reglna, sérstaklega alþjóðlegra, og gæta þess að þær flæki reglurammann ekki um of þannig að erfitt sé fyrir fyrirtæki að framfylgja þeim. Heildstætt mat ætti að fara fram á fyrirliggjandi umgjörð, þ.e. að gömlum reglum sé skipt út fyrir nýjar í stað þess að stöðugt sé aukið við regluverkið.

Í stjórnarsáttmálum undanfarinna ríkisstjórna hefur verið lögð áhersla á einföldun regluverks og voru stigin skref í þá veru af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins árið 2020 þegar ráðuneytið fékk OECD til að gera samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar og íslenskrar ferðaþjónustu. Í niðurstöðuskýrslu mátti finna 438 tillögur til breytinga á íslensku regluverki til einföldunar og aukinnar samkeppnishæfni. SA fögnuðu þessari vinnu og hafa lagt til að sambærilegt mat fari fram í öðrum atvinnugreinum. Að auki studdu SA þingsályktunartillögu um samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki árið 2020.

SA hafa bent á að við lagasetningu skorti verulega á mat á áhrifum hennar á atvinnulífið. Ísland er mjög langt á eftir nágrannaríkjum í þessum efnum. Hér eru metin áhrif á tekjur og gjöld ríkissjóðs, lagt er gróft mat á áhrif á sveitarfélög og nýlega var farið að leggja kynjamat á lagafrumvörp. Uppi hafa verið hugmyndir um að loftslagsmeta frumvörp en ekki hefur verið skýr vilji af hálfu stjórnvalda til að meta áhrif lagasetningar á atvinnulíf. Þá munu SA áfram leggja áherslu á það, í umsögnum sínum, að efnahagsleg áhrif lagasetningar verði metin.

Greinaskrif

Starfsmenn samkeppnishæfnisviðs skrifa reglulega pistla og greinar í fjölmiðla um málefni sem efst eru á baugi hverju sinni.  Á starfsárinu voru meðal annars birtir pistlar um sjálfbærnimál, netglæpi, mikilvægi erlendrar fjárfestingar, húsnæðismarkaðinn og opinber fjármál.

Útgáfa

Ítarlegar greiningar og lengri umsagnir voru þónokkrar á starfsárinu. Má þar nefna „Illa nýttur meðbyr“, umsögn SA um frumvarp til fjárlaga 2023, „Glýja um milljón á mánuði“, um þróun lágmarkslauna og 23 athugasemdir SA og SVÞ við greiningu Samkeppniseftirlitsins á framlegð fyrirtækja á íslenskum dagvörumarkaði.