SA eiga aðild að BusinessEurope sem eru heildarsamtök evrópskra atvinnurekenda. Sú aðild er nýtt til að fylgjast með þróun mála á vettvangi Evrópusambandsins og koma á framfæri sjónarmiðum um málefni sem varða EES-samstarfið. Iðulega má finna nytsamlegar athugasemdir frá BusinessEurope við löggjafartillögur ESB og reglulega berast fréttir frá samtökunum þar sem athygli er vakin á fyrirhuguðum löggjöfum ESB og framvindu mála í lagasetningarferlinu.
Lögmaður á efnahags- og samkeppnishæfnisviði er jafnframt fastafulltrúi (e. Permanent Delegate) SA gagnvart BusinessEurope og eru fastafulltrúafundir haldnir tvisvar í mánuði. Formannafundur (e. Council of Presidents) var haldinn í lok nóvember 2022 í Stokkhólmi og næsti formannafundur verður í Madríd í byrjun júní 2023.
Samtök atvinnulífsins leggja ríka áherslu á að taka þátt í samstarfi norrænna systursamtaka sinna. Þau eru Dansk arbejdsgiverforening (DA) og Dansk Industri (DI) í Danmörku, Elinkeinoelämän keskusliitto (EK) í Finnlandi, Næringslivets Hovedorganisasjon (NHO) í Noregi og Svenskt Näringsliv (SN) í Svíþjóð. Um stór og öflug samtök er að ræða sem búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu á málefnum atvinnulífsins og er mikilvægt að geta fylgst með áherslum þeirra enda oft hægt að líta til nágrannaríkja okkar í leit að fyrirmyndum, til að mynda varðandi undirbúning á regluverki hér á landi.
Samstarfið felst meðal annars í því að formenn og framkvæmdastjórar samtakanna hittast að jafnaði tvisvar á ári og jafnframt eru haldnir árlegir fundir lögfræðinga, hagfræðinga, skattasérfræðinga, samskiptastjóra, umhverfissérfræðinga og vinnumarkaðssérfræðinga. Árið 2022 voru norrænir lögfræðinga- og skattafundir haldnir á Íslandi. Tilgangur fundanna er meðal annars að fara yfir það sem er efst á baugi og fjalla um sameiginleg hagsmunamál og mismunandi nálganir í hverju landi fyrir sig auk þess að mynda tengsl en þessir hópar eiga í samskiptum milli funda vegna einstakra mála.
SA eiga aðild að Business at OECD (BIAC) sem eru samtök atvinnurekenda í OECD ríkjunum. Samtökin beita sér fyrir hagsmunum atvinnurekenda gagnvart OECD og aðildarríkjum þess.
SA eiga aðild að Ráðgjafarnefnd EFTA sem er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins í EFTA-löndunum og fjallar um þróun EES-samningsins með hliðsjón af hagsmunum sem aðilar vinnumarkaðarins gæta. Nefndin fundar að jafnaði fjórum sinnum á ári. Í tengslum við fundi nefndarinnar er árlega haldinn fundur með stjórnarnefnd EFTA (e. Standing Committee), ráðherrum EFTA-ríkjanna, þingmannanefnd EFTA og þeim ráðherra EFTA-EES ríkjanna sem hefur forystu fyrir EFTA hverju sinni. Nefndin vinnur annars vegar að gerð sameiginlegra álitsgerða með hliðstæðri ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins og hins vegar að sjálfstæðum álitsgerðum sem kynntar eru fyrir fastanefnd EFTA í Brussel og ráðherrum EFTA-ríkjanna.