03

Efnahagsmál

Á árinu 2022 var orðið ljóst að viðspyrna hagkerfisins eftir heimsfaraldur væri sterkari en bjartsýnustu spár höfðu gert ráð fyrir í upphafi. Staða heimila og fyrirtækja var góð sem veitti einkaneyslu og fjárfestingu byr undir báða vængi. Raunar var ofþensla farin að gera vart við sig í formi verðbólgu og vinnuaflsskorts og var skörpum vaxtahækkunum Seðlabankans ætlað að kæfa bálið. Þrátt fyrir góðan gang í hagkerfinu reyndist hægara sagt en gert að koma jafnvægi á opinber fjármál.

Sterkur vöxtur landsframleiðslu 

Hagkerfið hélt áfram að rétta úr kútnum á árinu og mældist hagvöxtur 6,4%. Fólksfjölgun var á sama tímabili áætluð um 3%, sem er nokkuð mikil fjölgun í sögulegu samhengi, og mældist hagvöxtur á mann því 3,7%.

Verg landsframleiðsla

Breyting milli ára (%)

Helsti drifkraftur hagvaxtarins var sterk einkaneysla, sem óx um tæplega 9% á árinu, en framlag útflutnings og fjárfestingar hafði einnig jákvæð áhrif á hagvöxt.

Einkaneysla

Breyting frá fyrra ári

Viðspyrna ferðaþjónustunnar var sterk á árinu og heimsóttu 1,7 milljónir ferðamanna Ísland, sem er 150% fjölgun frá fyrra ári. Fjöldi ferðamanna var þannig áþekkur þeim sem sótti landið heim árið 2016. Þó að mestu vaxtartækifærin milli ára hafi ef til vill verið í ferðaþjónustu mældist annar útflutningur einnig sterkur. Mikill innflutningsvöxtur varð hins vegar til þess að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt á árinu.

Fjöldi erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll

(þús)

Verðbólgan lét á sér kræla 

Verðbólga jókst til muna á heimsvísu á síðasta ári samhliða sterkum eftirspurnarkröftum, sem sigldu í kjölfar örvandi aðgerða stjórnvalda víða um heim í heimsfaraldrinum, og stríðsrekstri Rússlands í Úkraínu, sem leiddi til verðhækkana á hrávörum. Þá bætti ekki úr skák að Kínverjar viðhöfðu enn strangar sóttvarnartakmarkanir sem leiddu til áframhaldandi framboðshnökra í heimshagkerfinu. 

Á Íslandi mældist verðbólga 8,3% að meðaltali á síðasta ári, samanborið við 4,4% árið áður. Verðbólgan varð mest í júlí þegar hún stóð í 9,9%, en hjaðnaði lítillega í kjölfarið og stóð í 9,6% í árslok. Vonir stóðu til þess að hámarki verðbólgunnar hefði þá verið náð, þrátt fyrir áhyggjuraddir vegna þess breiða grunns sem hún mældist á.

Undirliðir verðbólgu

Framlag til ársverðbólgu (%)

Verulegar vaxtahækkanir 

Í kjölfar heimsfaraldurs teiknaðist upp vandasöm efnahagsleg staða. Vaxandi verðbólga, lakari hagvaxtarhorfur og ört versnandi skuldastaða ríkja eftir kostnaðarsamar aðgerðir vegna heimsfaraldursins settu seðlabanka víða um heim í ákveðinn vanda. Ná þurfti tökum á verðbólgu án þess þó að hafa neikvæð áhrif á framtíðar hagvaxtargetu.

Sökum vaxandi verðbólgu, mikils eftirspurnarþrýstings og hækkandi verðbólguvæntinga ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka vexti á öllum fundum sínum á síðasta ári. Í upphafi árs stóðu meginvextir bankans í 2%, en hækkuðu um heilar fjórar prósentur á árinu og stóðu í 6% í lok árs. Þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir voru raunvextir bankans þó enn neikvæðir í árslok og stóðu væntingar því til þess að vextir Seðlabankans yrðu hækkaðir enn frekar.

Meginvextir Seðlabankans

(%)

Gengi krónunnar

Gengi krónunnar styrktist um 5% framan af ári meðal annars vegna væntinga um mikinn bata í ferðaþjónustu. Þróunin var þó önnur á seinni hluta árs og leiddi mikill innflutningur og vöruskiptahalli til þess að gengið lækkaði og endaði árið 2% lægra en það var í árslok 2021. 

Þróun gengis krónunnar á árinu 2022

Húsnæðisverðshækkanir héldu áfram 

Framan af ári mældist hækkunartaktur húsnæðisverðs á bilinu 20-25% að nafnvirði. Heldur dró úr verðhækkunum og nam nafnverðshækkunin 17% í árslok. Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans höfðu þar eflaust sitt að segja til að draga úr eftirspurn á húsnæðismarkaði. Á sama tímabili jókst verðbólga þó nokkuð og dró því að sama skapi úr raunverðshækkunum þegar líða tók á árið. Í lok árs stóð raunverðshækkun íbúðarhúsnæðis í tæplega 10%.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu

Sterk staða á vinnumarkaði 

Staðan á vinnumarkaði var sterk á síðasta ári en atvinnuleysi var að meðaltali 3,8%. Atvinnuþátttaka jókst á sama tíma og talsverður fjöldi fólks flutti til landsins. Eftirspurn eftir vinnuafli var enda mikil og hafði skortur á vinnuafli ekki mælst jafn mikill frá því fyrir fjármálakreppu. Talið er að fjölgun vinnustunda hafi numið tæplega 7% og að starfandi einstaklingum hafi fjölgað um 7,5% á árinu en aukningin mældist hvað mest í byggingarstarfsemi, verslun og ferðaþjónustu.

Þróun atvinnuleysis

Skráð atvinnuleysi skv. Vinnumálastofnun

Er núna skortur á starfsfólki í þínu fyrirtæki?

Kjaraviðræður lituðu haustið 

Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var árið 2019 rann sitt skeið í lok október 2022 og markaðist haustið því af kjaraviðræðum í erfiðu efnahagsumhverfi. Í ljósi óvenju mikillar efnahagslegrar óvissu þótti skynsamlegt að undirrita framlengingu Lífskjarasamningsins til janúarloka 2024 þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið í kröfugerð aðila var frestað.

Áskoranir í opinberum fjármálum 

Staða opinberra fjármála hefur verið varhugaverð í kjölfar heimsfaraldurs. Þó tekjur hafi verið umfram væntingar er vandinn sá að tímabundinni tekjuaukningu hefur gjarnan verið ráðstafað til varanlegrar útgjaldaaukningar. Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir því að útgjaldareglu verði hið minnsta bætt við þær fjármálareglur sem þegar gilda um opinber fjármál. Þær aðstæður sem nú eru uppi sýna glögglega þörfina fyrir slíka viðbót en henni er ætlað að hafa hemil á mikilli útgjaldaaukningu í uppsveiflum, sem erfitt hefur reynst að draga til baka þegar gefur á bátinn.

Væntingar dvína en staðan er almennt góð 

Miklar sveiflur urðu á væntingum heimila og fyrirtækja í kjölfar heimsfaraldurs. Efnahagsleg óvissa og svartsýni var alltumlykjandi á árinu 2020 en í kjölfar umfangsmikilla aðgerða yfirvalda tóku væntingar stórt stökk upp á við á árinu 2021. Á árinu 2022 var svo orðið ljóst að talsverð spenna var tekin að myndast í hagkerfinu og miklum vaxtahækkunum ætlað að slá á þensluna. Samhliða tóku væntingar heimila og fyrirtækja til efnahagslífsins að dala á ný. Þrátt fyrir strembið efnahagsumhverfi á árinu mældist staða heimila og fyrirtækja þó almennt góð hvað varðar kaupmátt og skuldastöðu.