02

Vinnumarkaðurinn

Í yfirstandandi samningalotu, sem hófst haustið 2022, hafa Samtök atvinnulífsins undirritað 92 kjarasamninga sem hafa náð til rúmlega 114 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Upphaflega var lagt upp með gerð langtímasamninga en fljótlega varð ljóst að aðstæður í hagkerfinu kölluðu á skammtímasamninga. Í desember voru undirritaðir samningar við þorra starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Samningarnir eru kallaðir Brú að bættum lífskjörum og eiga að standa vörð um kaupmátt fólks á verðbólgutímum.

Á árinu voru að jafnaði tæplega 218 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði og fjölgaði um rúm 9 þúsund á milli ára. Fjöldi starfandi var tæp 210 þúsund og mældist atvinnuleysi 3,7%.

Fjöldi starfandi skv. skrám og skráð atvinnuleysi


Launahækkanir á Íslandi hafa verið margfalt meiri en í viðskiptalöndunum undangengin ár og áratugi. Flestum ætti að vera ljóst að þetta er kerfislægt einkenni á íslenskum vinnumarkaði sem setur þrýsting á gengi krónunnar. Sögulega hafa launahækkanir umfram viðskiptalöndin að lokum leitt til veikingar krónunnar vegna verri samkeppnisstöðu atvinnulífsins og neikvæðs viðskiptajafnaðar vegna of mikils kaupmáttar miðað við undirliggjandi stöðu þjóðarbúsins. Frá árinu 2014 hefur tímakaup á Íslandi hækkað um 77,7% samanborið við 37,8% í OECD-ríkjunum og 20,2% á hinum Norðurlöndunum að meðaltali.

Vísitölur tímakaups á Íslandi og í viðskiptalöndunum 2014–2022

Brú að bættum lífskjörum

Skammtímakjarasamningar voru undirritaður í desember 2022 milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og SGS, VR, LÍV og samflots iðnaðarmanna. Samningurinn gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024.

Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar var áhersla lögð á að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

Með undirritun samningsins hafði SA samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði sem samanstanda af meira en 80 þúsund manns. Efling beið þá ein utan sáttar og stóðu vonir til að ná samningum við félagið í kjölfarið.

Samninganefnd SA og liðsaukinn að loknum skammtímasamningum við um 80.000 manns í desember 2022. //BIG

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA var að vonum ánægður með árangurinn eftir þrotlausa vinnu allra samningsaðila:

Samningar Samtaka atvinnulífsins við SGS annars vegar og VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna hins vegar munu byggja undir áframhaldandi lífskjarabata og endurnýja stöðugleika. Það er tilgangurinn og það verkefni sem við höfum verið að fást við, beggja vegna samningaborðsins, síðustu vikur og mánuði.

Kynning á samningunum.

Umbrotatímar í Karphúsinu

Kjaraviðræður SA við Eflingu stóðu stutt, eða þar til Efling boðaði til verkfalla. Í kjölfarið lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu í deilunni. Aftur á móti neitaði Efling að afhenda kjörskrá sína og þurfti ríkissáttasemjari því að leggja fram aðfararbeiðni hjá sýslumanni til að fá hana afhenta. Atburðarás næstu daga endaði með því að Aðalsteinn óskaði eftir því við vinnumarkaðsráðherra að stíga til hliðar sem ríkissáttasemjari í kjaradeilu SA og Eflingar. Ástráður Haraldsson var þá settur ríkissáttasemjari í deilunni og var falið það vandasama verkefni að finna leið til að höggva á hnútinn

Á þessum tímapunkti höfðu verkfallsaðgerðir Eflingar staðið yfir í töluverðan tíma og valdið miklum skaða í samfélaginu. Til að lágmarka tjón atvinnulífsins af verkföllum Eflingar var ákveðið að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í Eflingu sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi og veitinga- og gistihúsasamningi SA og Eflingar.

Verkbann var samþykkt með 94,73% greiddra atkvæða. Það kom þó aldrei til þess að verkbannið hæfist því settur ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu sem var samþykkt af báðum aðilum.

Tímalína kjaralotunnar