06

Sjálfbærni

Hugtakið sjálfbærni tengir saman grunnstarfsemi fyrirtækja og þá hugsun að búa til virði til langs tíma. Hagræðing á ferlum fyrirtækja getur skilað sér í aukinni skilvirkni, dregið úr rekstrarkostnaði og ýtt undir heilbrigðan rekstur til frambúðar.

Starfsemi allra fyrirtækja hefur áhrif á umhverfið. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa um árabil hvatt fyrirtæki til þess að lágmarka þau áhrif. Sjálfbær nýting auðlinda er lykillinn að farsælum rekstri á mörgum sviðum og fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál.

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á mikilvægi þess að skoða þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar: vernd umhverfisins, félagslega velferð og efnahagsvöxt heildrænt og að tengja saman grunnstarfsemi fyrirtækja og þá hugsun að búa til virði til langs tíma.

Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og aðkoma atvinnulífsins skiptir sköpum þar sem horfa þarf til nýsköpunar og fjárfestingartækifæra en sjálfbærni er nauðsynlegur lykilþáttur í sterku hagkerfi sem stendur undir sér. Tenging árangurs í umhverfis- og sjálfbærnimálum við lækkun kostnaðar mun leiða til aukinnar verðmætasköpunar, sem er undirstaða bættra lífskjara. Tækifærin eru til staðar og miklir hagsmunir eru fólgnir í því að vera leiðandi á sviði grænna atvinnuvega og nýsköpunar.

Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir einföldun á regluverki, innleiðingu á hagrænum hvötum, takmörkunum á íþyngjandi kvöðum og að stjórnvöld skapi umhverfi sem leyfir nýsköpun, þá sérstaklega í umhverfis- og loftslagsmálum, að blómstra.

Umhverfismánuður atvinnulífsins

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins var allur októbermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi hringrásarhagkerfinu. Hringrásarhagkerfið snýst um hvernig nýta má hráefni á sem skilvirkastan hátt og fyrirbyggja til að mynda sóun og losun gróðurhúsalofttegunda með breyttum áherslum í vöru- og þjónustuhönnun. Rannsóknir sýna að búast má við því að hringrásarhagkerfinu fylgi jákvæð áhrif á efnahagslífið og landsframleiðslu. Einnig má búast við aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins. Fróðlegir umræðuþættir voru sýndir alla þriðjudaga og fimmtudaga í október þvert á atvinnugreinar sem sýndu viðfangsefni fyrirtækjanna og árangur þeirra. Í lok októbermánaðar 2022 var síðan haldinn sérstakur viðburður um nýja löggjöf  um hringrásarhagkerfið sem fulltrúar atvinnulífsins, stjórnvalda og sveitarfélaga komu að.

Umhverfisdagur atvinnulífsins: Auðlind vex af auðlind

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður sem var haldinn í áttunda sinn þann 5. október 2022 í Hörpu. Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Fróðleg og skemmtileg dagskrá fór fram en umfjöllun á deginum snerist um hinar ýmsu hliðar hringrásarhagkerfisins. Farið var yfir það hvernig hringrásarhugsun getur gagnast fyrirtækjum á leið sinni í átt að kolefnishlutleysi, tækifæri og áskoranir tengdar fjármögnun grænna verkefna, samvinnuverkefni á milli fyrirtækja og atvinnugreina þar sem auðlind vex af auðlind, hvaða hlutverk sjávarútvegur og mannvirkjageirinn spila í hringrásarmálum og að lokum hvernig er hægt að stuðla að hringrás auðlinda þar sem magn er málið.

Ljóst er að fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál. Sjálfbær nýting auðlinda er lykillinn að farsælum rekstri margra fyrirtækja. Betri nýting aðfanga, átak til að draga úr myndun úrgangs, dregur úr kostnaði og stuðlar að góðri afkomu auk þess að skipta miklu máli til að draga úr áhrifum á umhverfið. Sífellt aukast kröfur almennings um ábyrga stjórnun umhverfismála í öllum rekstri og þeim hefur fjölgað mikið á undanförnum árum sem annast umsjón umhverfismála, bæði hjá stórum fyrirtækjum og smáum.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru veitt fyrirtækjum sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson tilkynnti verðlaunin en umhverfisfyrirtæki ársins var Norðurál og framtak ársins á sviði umhverfismála var Sjóvá.

Margar tilnefningar bárust vegna Umhverfisverðlauna atvinnulífsins, bæði fyrir umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins, en ljóst er að atvinnulífið lætur sitt ekki eftir liggja í þessum efnum. Markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í losun GHL fyrir 2030 og kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040 verður nefnilega ekki náð nema með nánu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins.

Sjálfbærnidagur atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins og EY á Íslandi halda árlegan Sjálfbærnidag atvinnulífsins þar sem fyrirtæki á Íslandi geta sótt sér nýjustu þekkingu sem nýtist þeim í rekstri út frá sjálfbærni og þremur stoðum hennar; vernd umhverfisins, félagslegri velferð og efnahagsvexti. Dagurinn var haldinn í annað sinn þann 23. nóvember í Kaldalóni í Hörpu.

Aðalfyrirlesari dagsins var Cecilie Kjeldsberg, sérfræðingur í mannréttindum, en hún fór yfir það regluverk sem er framundan er varðar mannréttindi í virðiskeðjum og hvert hlutverk fyrirtækja verður. Kjeldsberg leiðir mannréttindateymi innan sjálfbærnisviðs EY á Norðurlöndunum og var valin ein af vonarstjörnum Noregs (e. Guiding Stars) í tengslum við 30 undir 30 listann.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, flutti erindi á Sjálfbærnidegi atvinnulífsins.

Dagurinn samanstóð af fróðlegum erindum og pallborðsumræðum þar sem farið var yfir mátt virðiskeðjunnar og tækifæri til þess að hafa jákvæð áhrif á alþjóðlegar virðiskeðjur út frá til að mynda alþjóðlegum mannréttindum, kolefnisspori og væntanlegum tilskipunum. Rætt var hvernig tengja megi saman jákvæð umhverfis- og samfélagsáhrif í rekstri fyrirtækja og mikilvægi þess að sjálfbærni sé hluti af heilbrigðum rekstri fyrirtækja.

Cecilie og Dr. Snjólaug Ólafsdóttir leiddu spennandi vinnustofu í lok dagskrár sem bar heitið: „A step-by-step approach to introduce a human rights framework to your business: learnings from the energy sector in Norway“.

Að sjá skóginn fyrir trjánum.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins

Vinna við gerð Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA) hófst haustið 2022 en LVA er samstarfsverkefni atvinnulífsins og stjórnvalda í loftslagsmálum. Vinnan er unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi og viðeigandi aðildarsamtaka með stuðningi frá vinnuteymi Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Verkefnið er nú í fullum gangi og miðar vel áfram. Aðildarsamtök SA hafa haldið ellefu vinnustofur á fyrstu mánuðum ársins 2023 en markmiðið með LVA er að stuðla að auknu samstarfi og samtali á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun fyrir Ísland. Þannig megi hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Íslenskt atvinnulíf gegnir mikilvægu hlutverki í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands um 55% samdrátt í losun fyrir 2030 (m.v. 2005) og kolefnishlutleysi 2040 náist. Atvinnulífið hefur þegar stigið stór skref á þeirri vegferð að ná fram nauðsynlegum umbreytingum í sinni starfsemi en ljóst er að mikið verk er enn óunnið.

Að sama skapi er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg, til að mynda hvað varðar lög og reglugerðir, með hvötum til grænna fjárfestinga, stuðningi við umhverfi nýsköpunar, tækniþróunar og orkuskipta.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins munu innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa með mælanlegum markmiðum og úrbótatillögum sem stuðla að samdrætti í losun. Þá munu vegvísarnir ramma inn aðgerðir sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum til að koma á umbótum í loftslagsmálum.

Stefnt er að því að gefa vegvísana út í byrjun júní á Grænþingi, sameiginlegum vettvangi atvinnulífsins og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Vegvísar atvinnugreinanna eru lifandi skjöl sem verða uppfærð árlega en einnig verður hægt að bæta atvinnugreinum við eftir því sem verkefninu vindur fram.

Global Compact

Samtök atvinnulífsins hafa verið tengiliður Íslands við UN Global Compact - sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Um er að ræða eitt öflugasta framtak í heiminum á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja. Sameinuðu þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000 en Kofi Annan lagði til að atvinnulífið og Sameinuðu þjóðirnar gerðu með sér sáttmála um ábyrgt atvinnulíf til að hvetja fólk og fyrirtæki til góðra verka.

Global Compact byggir á fjórum megin flokkum: umhverfismálum, mannréttindum, vinnurétti og vörnum gegn spillingu. Undir þessum fjórum meginflokkum eru tíu grundvallarviðmið sem fyrirtæki setja sér til að fara eftir í rekstri sínum.

Viðmiðin styðja helstu heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og fyrirtæki geta notað Global Compact til þess að gera viðskiptavinum sínum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir sjálfbærnistefnu sinni og hvernig henni er framfylgt. Aukin krafa er um að gerð sé grein fyrir hvernig þessum málum er háttað innan fyrirtækja og í sumum tilfellum er stefnan forsenda viðskipta. Global Compact er því verkfæri sem aðstoðar fyrirtæki við að ramma inn stefnu fyrirtækisins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og tengja hana við grundvallargildi rekstrar fyrirtækisins.

Árið 2015 settu 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, sér sameiginleg markmið – 17 heimsmarkmið um betri heim - sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.

Sáttmálinn og heimsmarkmiðin vinna vel saman. Með því að innleiða 10 viðmið sáttmálans í rekstur fyrirtækja er lagður grunnur að ábyrgum rekstri fyrirtækja frá degi til dags, en stefnt er að því að heimsmarkmiðunum sé náð árið 2030.

Í lok árs 2022 komu Samtök atvinnulífsins ásamt hópi fyrirtækja að því að stofna betri umgjörð fyrir Global Compact vettvanginn hér á landi. Markmiðið var að efla samstarf íslenskra aðila að UNGC út fyrir landsteinana með því að stuðla að ráðningu sérstaks umdæmisstjóra fyrir Ísland. Samtök atvinnulífsins hlakka til að fylgjast með vettvanginum stækka og nýtast fleiri íslenskum fyrirtækjum en sáttmálinn er frábært fyrsta skef í markvissari sjálfbærnivegferð t.d. lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru jú stærsti vinnuveitandi landsins.

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Samtök atvinnulífsins eru með fulltrúa í stýrihópi stjórnvalda um gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins taka þátt í vinnunni í gegnum vinnustofuröð Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins um aðlögun að loftslagsbreytingum með  það  markmiði  að  fá  yfirsýn  yfir  hvar  ólíkir málaflokkar  eru  staddir  í  þessari  vegferð  og  kortleggja  hvar  má  gefa  í  eða  breyta.  Um er að ræða samtalsferli ráðuneytisins um ákveðin málefnasvið fyrir landsáætlun og gerð Hvítbókar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Haldið er utan  um vinnustofurnar á sérstakri vinnuvefsíðu fyrir þátttakendur í samráðsferlinu sem er í umsjón Alta ráðgjafa sem hafa einnig umsjón með skipulagningu vinnustofanna.

Nefndir og ráð

Samtök atvinnulífsins eru þátttakendur eða eiga fulltrúa í hinum ýmsu nefndum og ráðum tengdum umhverfis- og sjálfbærnimálum, til að mynda í: Loftslagsráði, Loftslagssjóði, Samráðshópi um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og innleiðingu þess hér á landi, starfshópi um drykkjarvöruumbúðir, Dag umhverfisins, samráðsvettvangi um aðgerðaráætlun í plastmálefnum, starfshópi um tillögur að aðgerðum vegna matarsóunar, starfshópi vegna leiðbeininga um umskipun olíu og stýrihóp um framkvæmd aðgerða í úrgangsmálum og svo lengi mætti telja.