08

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Atvinnulífið ber ótvíræðan hag af því að allt starfsfólk fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri á íslenskum vinnumarkaði. Það liggur í augum uppi að ekkert fyrirtæki hefur hagsmuni af því að mismuna starfsfólki sínu og hafa Samtök atvinnulífsins lagt lóð sín á vogarskálarnar með stöðugu samtali við atvinnulífið um mikilvægi jafnréttis og fjölbreytileika.

Hvatningarverðlaun jafnréttismála og Jafnréttissprotinn

Á síðastliðnu ári, líkt og undanfarin ár, veittu Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands hvatningarverðlaun á sviði kynjajafnréttis. Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama.

Árið 2022 voru veittar viðurkenningar í tveimur flokkum þar sem horft er til kynjajafnréttis annars vegar og Jafnréttissprotans hins vegar, vegna áhugaverðs verkefnis eða framtaks með tilliti til fjölmenningar, fötlunar og annarra brýnna viðfangsefna jafnréttismála. Síðstliðið ár hlaut Krónan Hvatningarverðlaun jafnréttismála og var Rio Tinto veittur Jafnréttissprotinn.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Í umsögn dómnefndar kom fram að Krónan sé með stefnu, skýran tilgang og markmið í málefnum starfsfólks af erlendum uppruna og hafi fjölbreytni í starfsmannavali fest þar rætur. Sýnt hafi verið fram á mælanlegan árangur af þeim markmiðum og aðgerðum sem fyrirtækið hafi sett sér í málefnum starfsfólks af erlendum uppruna og Krónan sé meðvituð um rekstrarlegan ávinning af fjölbreytni á vinnustað.

Í umsögn dómnefndar vegna Jafnréttissprotans kom fram að Rio Tinto hefði innleitt tvö ný verkefni, frumkvæði í starfsemi fyrirtækisins sem séu veigamikið og framsækið skref í jafnréttismálum. Annars vegar er um að ræða útfærslu á fæðingastyrk og hins vegar stuðning við starfsfólk sem er þolendur heimilisofbeldis og hins vegar veitir Rio Tinto fæðingarstyrk til töku fæðingarorlofs.

Tryggt félagslegt vinnuumhverfi stuðlar að jafnrétti

Undanfarið ár hefur SA ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins unnið með Vinnueftirlitinu að gerð fræðsluefnis og verkfærum fyrir stjórnendur og starfsfólk gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Vinnu­staðir eru hvattir til að tryggja öruggt félagslegt vinnuumhverfi og gefa skýr skila­boð um að kyn­ferðis­leg á­reitni sé ekki liðin á vinnustöðum og að brugðist verði við gerist þess þörf. Lögð er áhersla á að það sé til mikils að vinna því slæmt vinnuumhverfi getur valdið starfs­fólki heilsu­tjóni og haft nei­kvæð á­hrif á árangur, fram­leiðni og orð­spor vinnu­staða, sjá hér:

Félagslegt vinnuumhverfi - af hverju skipta góð samskipti á vinnustað máli ?

Nýtt fræðsluefni og verkfæri var þróað með það að markmiði að styðja við vinnustaði landsins í að fyrirbygga og bregðast við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu. SA hafa bent á mikilvægi þess að stjórnendur og starfsfólk taki höndum saman og skapi góða vinnustaðamenningu til dæmis með undirritun samskiptasáttmála sem uppfærður var á árinu.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins afhenti forsætisráðherra uppfærðan samskiptasáttmála SA sem hægt er að hengja upp í kaffistofum eða á göngum fyrirtækja til að minna á mikilvægi þess að tryggja vellíðan á vinnustöðum, öryggiskennd og góðan starfsanda. SA hafa lagt áherslu á að við berum öll ábyrgð á góðri vinnustaðamenningu, sjá grein hér:

Við berum öll ábyrgð á góðri vinnustaðamenningu

Staða erlendra kvenna á vinnumarkaði

SA lét sig ekki vanta á Jafnréttisþing 2022 en umfjöllunarefnið sneri að aðgengi, möguleikum og hindrunum sem konur af erlendum uppruna mæta á íslenskum vinnumarkaði. Í frásögnum kvennanna kom fram að menntun, reynsla og bakgrunnur þeirra virðist ekki metin til jafns við innfædda. Margar konur af erlendum uppruna sem hingað koma hafa menntað sig til allt annarra og betri launaðra starfa en fá menntun sína ekki metna á vinnumarkaði, festast í láglaunastörfum og eiga ekki möguleika á framgangi. Þá kom einnig fram að aðgengi að íslenskukennslu sé verulega ábótavant. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, tók þátt í umræðum og benti á mikilvægi þess að meta menntun aðfluttra til jafns við innfæddra.

Vagga menntunar í heiminum er ekki Háskóli Íslands.

- Halldór Benjamín Þorbergsson

Hann benti ennfremur á að þar sem íslenska er mál atvinnulífsins hafi Samtök atvinnulífsins lagt sérstaka áherslu á máltækni og telja hana mikilvæga þegar kemur að því að erlendir einstaklingar geti öðlast fulla virkni á íslenskum vinnumarkaði, enda sé máltækni lykillinn að blómstrandi fjölmenningu. Greinin Fjaðurmögnuð mörgæs var birt í tilefni Jafnréttisþings.

Umfjöllunarefni Jafnréttisþings árið 2022 var staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði.

Einnig kom fram á þinginu að dræm kosningaþátttaka fólks af erlendum uppruna á Íslandi sé áhyggjuefni. Fjölbreytileikinn mun aðeins aukast á Íslandi á næstu árum og því er mikilvægt að framboðslistar endurspegli undirliggjandi fjölbreytileika á Íslandi. SA hafa lagt áherslu á virkni, aðgengi og þátttaka eru og verða ávallt lykilorð í ákvörðunum sem snerta daglegt líf fólks, hag þess og laun eins og fram kemur í grein framkvæmdastjóra SA og forstöðukonu Fjölmenningarsetursins:

„Bíddu, hvað er í gangi?“/ “O co tak naprawdę chodzi?”

Aukinn fjölbreytileiki styrkir vinnustaði og eykur samkeppnishæfni þeirra

Ávinningur vinnustaða af fjölbreytileika er mikill því með fjölbreyttum mannauði eru vinnustaðir betur í stakk búnir til að takast á við fjölbreyttar áskoranir til dæmis í rekstri, framleiðslu og þjónustu sjá grein hér:

Fjölbreytileiki styrkir íslenskt atvinnulíf.

Á árinu tóku SA og Fjölmenningarsetrið saman höndum og þróuðu verkfæri sem stjórnendur geta notfært sér í að auka, inngilda og styrkja fjölmenningu á vinnustað. Sem dæmi má nefna form af fjölmenningarstefnu, móttökuáætlun og gátlista sem stjórnendur geta nýtt sér. Einnig er fræðsluefni hvað varðar menningarnæmi og ómeðvitaða hlutdrægni í þróun svo eitthvað sé nefnt.

SA komu að skipulagningu á viðburði um stöðu hinsegins fólks á vinnumarkaði en nýleg greining­ sem unnin var í samstarfi Sam­tak­anna '78 og BHM gefur vísbendingar að launamunur gæti verið á milli einstaklinga á íslenskum vinnumarkaði eftir kynhneigð þeirra. 

Launamunur kynjanna

Á síðastliðnu ári komu SA að skipulagningu nokkurra viðburða um jafnlaunamál. Viðburðirnir fjölluðu meðal annars um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og muninn á jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu, þá þætti sem hafa áhrif á hæfni stjórnenda til að taka ákvarðanir en þar var fjallað um tvær hliðar ákvarðana. Annars vegar fyrirbyggjandi aðgerðir eins og fræðslu, forvarnir, samtöl og menningu og hins vegar um viðbrögð, ferla, vaktanir og áætlanir í tengslum við jafnlaunamál en einnig var farið yfir greiningu Hagstofunnar á launamun kynjanna.  

Í grein aðstoðarframkvæmdastjóra SA í lok ársins var kallað eftir endurskoðun lögfestingar jafnlaunastaðalsins, sem samkvæmt nýlegri rannsókn á vegum HÍ hefur hverfandi áhrif á launamun kynjanna, enda innleiðing staðalsins kostnaðarsöm og íþyngjandi, sérstaklega fyrir minni og meðalstór fyrirtæki.

Undanfarinn áratug hafa SA lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál og mótað skýra stefnu í málaflokknum. Samtökin vita fullvel að athafnir verða að fylgja orðum í svo mikilvægum málaflokki og hafa því sett jafnréttismál á oddinn. Auk þess að eiga fulltrúa í mörgum starfshópum og nefndum sem fjalla um jafnrétti á vinnumarkaði standa samtökin fyrir öflugri fræðslu til félagsmanna sinna um jafnréttismál.