10

Samtök atvinnulífsins

Starfsárið 2022-2023

Ljóst var að starfsárið yrði krefjandi fyrir stjórn SA, enda var Lífskjarasamningurinn að renna sitt skeið haustið 2022 og veturinn því markaður af kjaraviðræðum í erfiðu efnahagsumhverfi. Um svipað leyti og ný stjórn SA tók við hófu kröfugerðir frá stéttarfélögum að berast. Lituðust umfjöllunarefni stjórnar af þeim álitamálum sem uppi voru í tengslum við kjaraviðræður svo sem svigrúmi til launahækkana í verðbólguumhverfi, afstöðu til samningstilboða og viðbrögðum við verkfallsboðunum og miðlunartillögum. 

Stjórn SA, sem skipuð er tuttugu fulltrúum auk formanns, kom níu sinnum saman á starfsárinu. Undir lok árs 2022 náðust stefnumarkandi kjarasamningar við SGS, VR og samflot iðnaðarmanna sem undirritaðir voru til 15 mánaða undir yfirskriftinni Brú að bættum lífskjörum. Erfiðara reyndist að ná samningum við Eflingu stéttarfélag en Efling sleit viðræðum við SA og boðaði verkföll í byrjun febrúar. Verkföll Eflingar voru til umræðu á vettvangi stjórnar sem og verkbann af hálfu SA og miðlunartillögur ríkissáttasemjara. Samhliða vinnudeilunni voru málefni Vinnudeilusjóðs rædd.  

Stjórn Samtaka atvinnulífsins á starfsárinu 2022 – 2023

Formaður: Eyjólfur Árni Rafnsson
Varaformaður: Bjarnheiður Hallsdóttir

Arna Arnardóttir 
Árni Sigurjónsson 
Benedikt Gíslason 
Birna Einarsdóttir 
Bogi Nils Bogason 
Edda Rut Björnsdóttir 
Einar Sigurðsson 
Guðrún Jóhannesdóttir 
Gunnar Egill Sigurðsson 
Heiðrún Lind Marteinsdóttir 
Hjörleifur Stefánsson 
Jón Ólafur Halldórsson 
Jónína Guðmundsdóttir 
Magnús Hilmar Helgason 
Ólafur Marteinsson 
Rannveig Rist 
Sigurður R. Ragnarsson 
Tómas Már Sigurðsson 
Ægir Páll Friðbertsson 

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar voru eftirfarandi kosin í framkvæmdastjórn, sem skipuð er sjö fulltrúum auk Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA: Árni Sigurjónsson, Birna Einarsdóttir, Bjarnheiður Hallsdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Jón Ólafur Halldórsson, Rannveig Rist og Sigurður R. Ragnarsson. Þá var Bjarnheiður Hallsdóttir kjörin varaformaður samtakanna.  

Framkvæmdastjórnin kom tíu sinnum saman á starfsárinu og ræddi, auk mála sem rædd voru í stjórn, framtíðarskipulag samtakanna,markaðsmál, innleiðingu evrópsks regluverks og möguleika á starfsemi samtakanna í Brussel, atvinnugreinanálgun í tengslum við loftslagsmarkmið, dómsmál tengd kjaraviðræðum og ráðningu nýs framkvæmdastjóra eftir að Halldór Benjamín tilkynnti um starfslok. 

Skrifstofa SA

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur, var ráðinn inn tímabundið til aðstoðar í kjaraviðræðum sem efnahagsráðgjafi SA á meðan Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, var í fæðingarorlofi. Hannes G. Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar og framkvæmdastjórnar og fyrrum aðstoðarframkvæmdastjóri SA, lét af störfum 30. september eftir 37 farsæl ár hjá VSÍ og SA. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði starfi sínu lausu í mars 2023 eftir tæplega sjö ára starf hjá samtökunum.